Bandarískur hershöfðingi segir Írana leggja sitt af mörkum í Írak

Bandarískir herforingjar segja að Írana standa við gefin loforð um …
Bandarískir herforingjar segja að Írana standa við gefin loforð um að gera sitt til þess að takamarka flæði vopna yfir landamærin til Íraks. Reuters

Bandarískur hershöfðingi viðurkenndi í dag að Íranar eiga þátt í því að draga úr blóðsúthellingunum í Írak. Hann segir að stjórnvöld í Teheran leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að vopn flæði yfir landamæri ríkjanna.

Hershöfðinginn James Dubik, sem hefur yfirumsjón með þjálfun íraskra öryggissveita, segir að írönsk stjórnvöld hafi staðið við loforð sitt um að koma í veg fyrir að vopnum sé smyglað yfir landamærin og í hendur íraskra uppreisnarmanna.

„Við erum öll afar þakklát fyrir framlag Írans sem hefur lagt sig fram við að draga úr flæði vopna, sprengiefnis og þjálfunar [uppreisnarmanna] í Írak,“ sagði Dubik í samtali við blaðamenn á Græna svæðinu svokallaða í Bagdad.

„Þetta hefur leitt til þess að ofbeldisverkum hefur fækkað nokkuð,“ sagði hann jafnframt.

Bandarískir herforingjar segja að ofbeldisverkum í Írak hafi fækkað um 55% frá því ný hernaðaráætlun Bandaríkjahers tók fullt gildi í júní sl.

Dubik bendir hinsvegar á að það sé of snemmt að meta það með nákvæmum hætti hver áhrif Írana séu en að vonast sé til þess að yfirvöld í Teheran haldi áfram að standa við gefin loforð.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði fyrr í þessum mánuði að Íranar hafi fullvissað stjórnvöld í Bagdad að þeir muni aðstoða við að draga úr flæði íranskra vopna til Íraks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert