Marglyttur drápu allan eldislaxinn á Norður-Írlandi

Allir laxar í einu laxeldisstöðinni á Norður-Írlandi drápust þegar marglyttuger komst inn í kvíarnar í síðustu viku. Um 100 þúsund laxar voru í kvíunum. Framkvæmdastjóri stöðvarinnar, sem tók við starfinu þremur dögum áður, segist hafa starfað við fiskeldi í 30 ár en aldrei orðið vitni að öðru eins.

Laxeldisstöðin er við Glens of Antrim norður af Belfast. The Northern Salmon Co. Ltd., eigandi stöðvarinnar, segir að milljarðar marglytta hafi myndað þéttan hóp sem náði yfir 25 ferkílómetra svæði og náði 10 metra niður í sjóinn.

John Russell, framkvæmdastjóri, segir að tugir starfsmanna fyrirtækisins hafi reynt að komast út í kvíarnar á þremur bátum en þeir komust lítið áfram gegnum marglyttuvöðuna. Þegar þeir náðu loks að kvíunum voru allir laxarnir dauðir eftir eiturstungur eða úr streitu.

Marglyttur af þessari tegund eru frekar algengar við strendur Miðjarðarhafs en stutt er síðan þær sáust fyrst við strendur Bretlandseyja. Vísindamenn segja að sú þróun sé merki um áhrif hlýnunar andrúmsloftsins.

Russell sagði að fyrirtækið, sem hefur selt afurðir til Frakkland, Belgíu, Þýskalands og Bandaríkjanna, stefni nú í gjaldþrot nema til komi sérstakar aðgerðir stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert