Pútín gagnrýnir Vesturlönd harðlega

Pútín ávarpar fundinn í dag.
Pútín ávarpar fundinn í dag. AP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kallaði andstæðinga sína „sjakala“ sem nytu fjárstuðnings frá Vesturlöndum, og sakaði vestræn ríki um afskipti af rússneskum stjórnmálum, í þrumandi ræðu er hann hélt á íþróttaleikvangi í Moskvu í dag. Þingkosningar fara fram í Rússlandi 2. desember.

Kosningarnar virðast að mestu farnar að snúast um það hvort Pútín eigi að sitja áfram við völd eftir að hann lætur af forsetaembættinu á næsta ári, eftir tvö kjörtímabil. Mikill fjöldi stuðningsmanna hans hlýddi á hann í dag, veifaði rússneskum fánum og hrópaði slagorð um að hann ætti áfram að vera þjóðarleiðtogi.

Pútín er efstur á framboðslista flokksins Sameinað Rússland og hefur látið að því liggja að hann verði forsætisráðherra. Flokkurinn nýtur mikils fylgis, og benda skoðanakannanir til að hann fái tvo þriðju atkvæða, og 80% sæta í neðri deild þingsins. Pútín er sjálfur mjög vinsæll, og eru 70% Rússa ánægð með frammistöðu hans.

Pútín gagnrýndi harðlega í dag þá andstæðinga sína sem hann sagði vera „á jötunni í erlendum sendiráðum líkt og sjakalar og treysta á stuðning erlends fjármagns og [erlendra] stjórnvalda, en ekki sinnar eigin þjóðar.“

Pútín hefur áður haldið því fram, að vestræn stjórnvöld vilji að Rússland sé veiklað og auðsveipt til að þeir geti komist upp með það sem þeim sýnist gagnvart því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert