Þjóðhöfðingi Líbýu, Moammar Gaddafi, segist vilja að bedúínatjald verði sett upp nærri hótelinu þar sem hann gistir er hann heimsækir Frakkland. Gaddafi hyggst ekki gista í tjaldinu, heldur er ætlunin að þjóðhöfðinginn geti tekið á móti gestum að hætti bedúína meðan á heimsókn hans stendur.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann hygðist taka á móti Gaddafi í opinberri heimsókn fyrir árslok.
„Ef ég hitti hann ekki, ef við tölum ekki við þau lönd sem eru að verða virðingarverðari hvað getum við þá sagt við Íran og Norður-Kóreu?” sagði franski forsetinn.
Sarkozy sagði þá að Líbýa hefði horfið frá þremur hræðilegum áætlunum með því að binda enda á leit sinni að kjarnorkuvopnum, snúa baki við hryðjuverkamönnum og með því að frelsa búlgarska sjúkraliða sem sakaðir voru um að smita börn með HIV veirunni.