Ísraelar ætla að byrja að draga úr dreifingu á raforku til Gasa-svæðisins í Palestínu frá og með 2. desember næstkomandi. Þetta er hluti af aðgerðum Ísraela til að þrýsta á stjórn Hamas á Gasa um að sjá til þess að eldflaugaárásum herskárra Palestínumanna frá svæðinu verði hætt.
Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt hugmyndir Ísraela um að draga úr dreifingu á eldsneyti og raforku til Gasa, og segja þær munu bitna á saklausum borgurum á svæðinu.
Stjórnvöld í Ísrael segja að til standi að gefa Palestínumönnum einnar viku frest áður en lokað verður á rafmagn.
Ýmsir hafa lýst áhyggjum sínum af því að aðgerðirnar verði til þess að rafmagn fari af sjúkrahúsum, vatnsbrunnum, holræsastöðvum og skólum. Ísraelsmenn segja þær áhyggjur ástæðulausar.