Fyrrum starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar segir, að John F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi hætt við ferð til Chicago í byrjun nóvember árið 1963 vegna þess að talið var að reynt yrði að myrða forsetann þar. Kennedy var skotinn til bana í Dallas í Texas 22. nóvember sama ár eða fyrir réttum 44 árum.
Upplýsingar hafa áður komið fram um að Chicagomálið en bandarískir fjölmiðlar hafa í rætt við Abraham Bolden, 72 ára fyrrum starfsmann bandarísku leyniþjónustunnar um málið. Til stóð að Kennedy færi til Chicago 2. nóvember en ferðinni var aflýst á síðustu stundu án þess að ástæða væri gefin upp.
Bolden segir, að leyniþjónustan hafi ráðlagt Kennedy að fara hvergi og lágu tvær ástæður til.
Sú fyrri var, að Thomas Vallee, kunnur hægriöfgamaður og hatursmaður forsetans, hafði tekið sér frí frá vinnu daginn áður en Kennedy ætlaði að heimsækja Chicago. Vallee var handtekinn og reyndist hafa undir höndum M1 riffil, skammbyssu og 3000 riffilskot.
Þá fengu leyniþjónustumenn hringingu frá starfsmanni mótels í Chicago en hún hafði séð sjálfvirka riffla og kort af leiðinni, sem Kennedy átti að aka um borgina, í herbergi sem tveir Kúbverjar höfðu tekið á leigu. Bolden, segir að leyniþjónustan hafi klúðrað þeirri rannsókn en mennirnir tveir hurfu sporlaust.
Upplýsingar um þessi tvö mál voru aldrei sendar til starfsmanna bandarísku alríkislögreglunnar í Dallas þar sem forsetinn var myrtur þremur vikum síðar.
Bolden segist hafa reynt að koma upplýsingum til Warren-nefndarinnar, sem rannsakaði morðið á Kennedy en án árangurs. Hann var síðar dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir að hafa reynt að kúga fé úr uppljóstrara og segir að það hafi verið gert til að reyna að þagga niður í sér.