Bandaríkjaher hefur lýst áhyggjum af þeirri ákvörðun kínverskra stjórnvalda að afturkalla hafnarleyfi bandarísks herflota í Hong Kong á síðustu stundu en fjölskyldur margra sjóliðanna höfðu flogið sérstaklega til Hong Kong frá Bandaríkjunum til að halda með þeim þakkargjörðarhátíðina er þeir kæmu að landi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Timothy Keating, yfirmaður bandaríska flotans á Kyrrahafi, segir kínversk yfirvöld ekki hafa gefið neina ástæðu fyrir afturköllun leyfisins sem kínverski herinn hafði veitt fyrir því að flugmóðurskipið Kitty Hawk og fylgisskip þess kæmu til hafnar í Hong Kong.
Aukin spenna hefur færst í samskipti Bandaríkjamanna og Kínverja að undanförnu m.a. vegna ólíkrar afstöðu þeirra til kjarnorkudeilunnar við Írana.