Eitt ár liðið frá dauða Litvínenkós

Alexander Litvinenko
Alexander Litvinenko AP

Fjölskylda og vinir fyrrum njósnara rússnesku leyniþjónustunnar Alexanders Litvínenkó, minntust þess í dag að eitt ár er liðið frá dauða hans. Eitrað var fyrir honum í byrjun nóvember í fyrra og lést hann þremur vikum síðar. Er talið að rússnesk stjórnvöld standi á bak við morðið en enn hefur enginn verð handtekinn fyrir morðið.

Á dánarbeðinu sagði Lítvínenkó að forseti Rússlands, Vladimír Pútín hafi borið ábyrgð á glæpnum. Stjórnvöld í Moskvu neita ásökunum.

Lögfræðingar ekkju njósnarans, Marinu, hafa sent Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg upplýsingar um málið og farið fram á að málið verði tekið þar upp.

Ef dómarar við mannréttindadómstólinn kveða upp þann úrskurð að stjórnvöld í Rússlandi beri ábyrgð á dauða Litvínenkós á landið það yfir höfði sér að vera rekið úr mannréttindaráði Evrópu. Alls eru 47 þjóðir aðilar að mannréttindaráðinu og hefur ekkert ríki verið rekið þaðan frá stofnun þess árið 1949, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar.

Breska ríkissaksóknaraembættið hefur krafist þess að Rússinn Andrei Lugovoj, sem starfaði um tíma fyrir leyniþjónustu í Rússlandi líkt og Lítvínenkó, verði framseldur frá Rússlandi svo hægt sé að birta honum ákæru fyrir aðild að morðinu á Lítvínenkó. Lugovoj heldur því hins vegar fram að Lítvínenkó hafi unnið fyrir Breta og þeir hafi ráðið honum bana.

Lugovoj átti fund með Lítvínenkó í Lundúnum sama dag og eitrað var fyrir Lítvínenkó með geislavirka efninu poloníum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert