Fjöldi nýrra tilfella HIV og alnæmissmits innan Evrópusambandsins hefur nærri tvöfaldast á undanförnum átta árum samkvæmt því sem fram kemur í nýrri skýrslu sem unnin var á vegum sóttvarnastofnunar sambandsins (ECDC). Mest er aukningin í Eistlandi, Portúgal og Bretlandi. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu stofnunarinnar hefur nýgreindum tilfellum fjölgað úr 28,8 tilfellum á ári á hverja milljón íbúa í 57,5 tilfelli frá árinu 1999 til ársins 2006. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt upplýsingum yfirvalda í Eistlandi tengdust 90% nýrra tilfella sem greindust í landinu árið 1999 sprautunotkun fíkniefnaneytenda. Einungis helmingur þeirra tilfella, sem greindust á síðasta ári, tengdust hins vegar sprautunotkun. Tíðni tilfella í landinu er nú 504 tilfelli á hverja milljón íbúa.
Einnig kemur fram í skýrslunni að tíðni HIV og alnæmistilfella hafi einnig aukist mikið í öðrum Austur-Evrópulöndum sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu og þá sérstaklega í Úkraínu þar sem tíðnin er nú 288 tilfelli á hverja milljón íbúa og í Rússlandi þar sem tíðnin er nú 275 tilfelli á hverja milljón íbúa.