Tæplega eitt hundrað farþegum og áhöfn skemmtiferðaskipsins Explorer hefur verið bjargað frá borði en skipið sigldi á ísjaka í Suðuríshafinu. Voru skipverjar ferjaðir yfir í norska skipið Nordnorge sem var statt á þessum slóðum við Suður-Hjaltlandseyjar.
Samkvæmt upplýsingum frá Gap Adventures, sem gerir skipið út, var 91 farþegi um borð og 9 manna áhöfn. Meðal farþega voru 23 Bretar, 17 Hollendingar, 10 Ástralar, 13 Bandaríkjamenn og 10 Kanadamenn. Auk Íra, Dana, Svisslendinga, Belga, Japana, Frakka, Þjóðverja og Kínverja. Er norska farþegaskipið á leið til hafnar í Ushuaia í Argentínu með skipverjanna af Explorer. Samkvæmt upplýsingum frá strandgæslu er veðrið gott á þessum slóðum og um fimm stiga frost, samkvæmt frétt BBC.
Á vef Aftenposten kemur fram að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Explorer lendir í vandræðum á þessum slóðum en þann 11. febrúar 1972 strandaði skipið við La Plaza Point, sem ekki er langt frá þeim stað er það rakst á ísjakann í morgun. Skipið hét á þeim tíma Lindblad Explorer og var í eigu norska fyrirtækisins Explorer.
Á vef Dagens Næringsliv kemur fram að fimm Svíar eru í áhöfn Explorer þar á meðal skipstjórinn, Bengt Wiman.
Explorer hefur oft komið til Íslands og m.a. legið fyrir akkeri í Vigur og á Hornströndum.