Samkvæmt heimildum portúgalska dagblaðsins 24 Horas mun sérskipað teymi rannsóknarlögreglumanna í Portúgal innan tíðar hætta rannsókn á hvarfi bresku stúlkunnar Madeleine McCann sem hvarf frá sumarleyfisstaðnum Praia Da Luz þann 3. maí. Samkvæmt frétt blaðsins hefur greining teymisins á gögnum í málinu ekki leitt neitt nýtt í ljós. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Paulo Rebelo, annar æðsti maður portúgölsku rannsóknarlögreglunnar, tók við stjórn málsins eftir að rannsóknarlögregla á staðnum hafði verið harðlega gagnrýnd fyrir það hvernig staðið var að rannsókninni á hvarfi stúlkunnar.
Rannsóknarlögreglumenn sem unnu að upphaflegri rannsókn málsins hafa lýst því yfir í fjölmiðlum að þeir telji víst að foreldrar stúlkunnar hafi átt þátt í hvarfi hennar og hafa þau fengið réttarstöðu grunaðra í málinu. Þá hefur Michaela Walczuch, unnusta Bretans Robert Murat sem einnig hefur réttarstöðu grunaðs manns í málinu, hótað lögsókn vegna frétta af því að hún hafi sést með stúlku sem svipaði til Madeleine skömmu eftir að hún hvarf.