Sonur Kaj Munk brennir eigur hans

Sonur danska rithöfundarins Kaj Munk hefur hafist handa við að brenna húsgögn föður síns í mótmælaskyni við það að danska ríkið skuli ekki koma að uppbyggingu safns um hann í gamla prestsetrinu í Vedersø. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Það er alger vanvirðing við minningu Kaj Munk að breyta honum úr þjóðarpersónu í sveitamann,” segir Arne Munk í viðtali við dagblaðið Ringkøbing-Skjern og vísar þar til þess að uppbygging safnsins sé alfarið í höndum svæðisbundna samtaka. Þá segist hann þegar hafa hafist handa við að brenna hluta af þeim 130 hlutum sem hann eigi úr fórum foreldra sinna. Hann sé þreyttur á því að skaffa geymslupláss fyrir slíka hluti og geti þar að auki nýtt þá með þessum hætti til húshitunar.

Hans Østergaard, formaður samtakanna Vedersø Præstegård sem vinna að uppbyggingu safnsins, segir mjög sorglegt að svona skuli vera farið með hlutina en að fátt sé við því að gera þar sem þeir séu í einkaeigu fjölskyldunnar og henni sé því frjálst að fara með þá að vild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert