Þingmenn á íraska þinginu fordæmdu í dag hvað aftaka þriggja samverkamanna Saddams Hussein, fyrrverandi forseta landsins, hefur dregist en þeir voru dæmdir til dauða þann 24. júní.
Einn þremenninganna er Ali Hassan al-Majid, sem nefndur hefur verið Efnavopna-Ali en einnig voru Sultan Hashim Ahmad al-Tai, fyrrum varnarmálaráðherra og Hussein Rashid Mohammed, helsti aðstoðarmaður hans, dæmdir til dauða.
Talið er að um 180 þúsund Kúrdar hafi lítið lífið í aðgerðum íraskra stjórnvalda til að bæla niður uppreisn. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að al-Majid væri sekur um þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi fyrir að skipa her og öryggissveitum að beita efnavopnum gegn óbreyttum borgurum.
Þá var al-Tai fundinn sekur um að fyrirskipað umfangsmiklar aðgerðir gegn óbreyttum borgurum þar sem efnavopnum var meðal annars beitt.
Voru það þingmenn úr hópi Kúrda og shjíta sem gagnrýndu það á þinginu í morgun að þremenningarnir væru enn á lífi þrátt fyrir dauðadóm.