Lögreglan í Þýskalandi rannsakar nú hvort 29 ára maður þar í landi hafi rakað hakakrossa í feldinn á hundi sínum, en hakakrossar og önnur nasismatákn eru bönnuð á opinberum vettvangi í Þýskalandi. Einnig fundust SS-merki í feldi hundsins.
Þegar lögreglan í bænum Straubing í Bæjaralandi kom til aðstoðar fyrrverandi unnustu hins grunaða, er hún vildi endurheimta eigur sínar úr íbúð hans af því að hún var hrædd við hann, kom í ljós að hundurinn bar þessi merki.
Ekki liggur fyrir hvort eigandi hundsins hafi farið með hann út úr íbúðinni eftir að hann rakaði merkin í feld hans, og því er ósannað að hann hafi sýnt þau á opinberum vettvangi. Verði það staðfest og maðurinn fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi.