Óeirðir brutust út í úthverfum Parísar í nótt eftir að lögreglubíll lenti í árekstri við mótorhjól með þeim afleiðingum að tveir unglingar létu lífið. Tugir ungmenna lentu í átökum við lögreglu og kveiktu í byggingun. Nokkrir lögreglu- og slökkviliðsmenn meiddust.
Óeirðirnar urðu í hverfunum Villiers-le-Bel og Arnouville. Árið 2005 urðu miklar óeirðir í Clichy-sous-Bois, sem er í nágrenninu.
Unglingarnir tveir 15 og 16 ára, voru á stolnu mótorhjóli þegar þeir lentu í árekstri við lögreglubíl. Lögreglan var ekki að elta drengina þegar slysið varð, að sögn Reutersfréttastofunnar.
Eftir slysið var kveikt í lögreglustöðinni í Villiers-le-Bel og bensínstöð í ágrenninu. Óeirðalögregla var send á staðinn en ungmenni reyndu að varna henni braut með því að kveikja í bílum. Að minnsta kosti sjö ungmenni voru handtekin.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Omar Sehhouli, bróður annars unglingsins sem lést, að uppþotið hefði ekki verið ofbeldi heldur hefðu menn verið að lýsa reiði sinni með táknrænum hætti.