Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, sakaði í dag Bandaríkjamenn um að hafa þrýst á ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu um að fylgjast ekki með þingkosningunum í Rússlandi, sem fram fara 2. desember næstkomandi.
Pútín sagði blaðamönnum í dag að ætlun Bandaríkjamanna væri að veikja traust manna á kosningarnar og að ákvörðun ÖSE hafi verið tekin vegna þrýstings frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.
Stofnunin ákvað að senda ekki eftirlitshóp til Rússlands eftir að Rússar settu ÖSE skilyrði og vildu m.a. takmarka fjölda eftirlitsmanna. Síðar var ákveðið að senda lítinn hóp evrópskra þingmanna til að hafa eftirlit með kosningunum í stað þess að senda fullskipaðan hóp eftirlitsmanna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig lýst yfir áhyggjum sínum af kosningunum og þeirri meðferð sem stjórnarandstæðingar fá í landinu.
Urður Gunnarsdóttir, talskona ÖSE, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, ákvörðuninni hafi ekki verið ætlað að hafa áhrif á kosningarnar í Rússlandi og að enginn utanaðkomandi aðili hafi haft áhrif á ákvörðunina.