Ætla að semja frið á næsta ári

Mahmud Abbas, George W. Bush og Ehud Olmert ganga í …
Mahmud Abbas, George W. Bush og Ehud Olmert ganga í salinn þar sem friðarráðstefnan er haldin. Reuters

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði þegar hann setti ráðstefnu um málefni Miðausturlanda í Annapolis í dag, að Ísraelsmenn og Palestínumenn hefðu fallist á að hefja nú þegar viðræður með það að markmiði að ná samkomulagi um frið fyrir lok næsta árs.

Bush sagði, að þessi niðurstaða hefði fengist í viðræðum hans við Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmud Abbas, forseta Palestínumanna. Gert er ráð fyrir að fyrsti formlegi viðræðufundurinn verði í desember og er stefnt að því, að ná samningum um sjálfstætt ríki Palestínumanna. 

Bandaríkjamenn buðu á fimmta tug þjóða að taka þátt í ráðstefnunni í Annapolis og þótt Bush hafa unnið þó nokkurn sigur með því að fá bæði Sádi-Araba og Sýrlendinga auk 13 annarra arabaþjóða til að taka þar þátt í beinum viðræðum við Ísraela.

Sýrlendingum er í mun að fá umræður um Gólanhæðir sem þeir vilja fá aftur en Ísraelar hertóku þær í sex daga stríðinu 1967. Þátttaka Sýrlendinga merkir að Íranar einangrast enn meira en ella í heimi múslímaríkja í Mið-Austurlöndum. Eitt af markmiðum Bush er einmitt að efla einingu arabaþjóða sem óttast vaxandi áhrif Írana á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert