Fulltrúar sex ríkja ætla að funda í París næstkomandi laugardag og ræða refsiaðgerðir gegn Írönum vegna kjarnorkuáætlunar þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér í dag.
<p>
Fundurinn átti upphaflega að eiga sér stað þann 19. nóvember, en honum var frestað þegar Kínverjar tilkynntu að þeir gætu ekki tekið þátt þá.
<p>
Í tilkynningunni segir að Nicolas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra, taki þátt fyrir hönd Bandaríkjamanna, en auk þeirra senda Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar og Þjóðverjar fulltrúa á fundinn. Löndin hafa mótað stefnu Sameinuðu þjóðanna í málinu, en öll eiga þau fastafulltrúa í öryggisráði SÞ nema Þjóðverjar.
<p>
Bandaríkjamenn hvöttu síðastliðinn mánudag Kínverja til að styðja nýja ályktun öryggisráðsins um hertar aðgerðir gegn Írönum, sem margir óttast að ætli að koma sér upp kjarnorkuvopnum.