Osama bin Laden, leiðtogi al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, hefur hvatt ríki Evrópu til að hætta öllu samstarfi við Bandaríkin og hverfa frá Afganistan. Þetta kom fram á hljóðupptöku sem arabíska fréttastofan Al Jazeera lék í dag.
Á hljóðupptökunni heyrðist karlmannsrödd, sem hljómaði eins og bin Laden, segja að það væri skynsamlegast fyrir Evrópumenn að yfirgefa Afganistan og slíta samstarfinu við Bandaríkin.
Al Jazeera lék jafnframt hluta af hljóðupptökunni þar sem bin Laden segir að talibanar, sem eru bandamenn hans, hafi ekkert vitað af áætlun al-Qaeda um að ráðast á Bandaríkin 11. september fyrir sex árum. Vitneskja talibana um árásina er sögð vera ein af helstu ástæðunum fyrir því að Bandaríkin gerðu innrás í Afganistan.
Mörg Evrópuríki hafa sent hermenn til Afganistan sem starfa á vegum NATO og Bandaríkjahers.
Ofbeldið í Afganistan hefur aukist smátt og smátt frá því talibanar hófu uppreisn gegn ríkisstjórn landsins sem nýtur stuðnings Vesturveldanna.