Rice líkir Palestínu við Suðurríkin

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, í …
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, í Ramallah á Vesturbakkanum í upphafi þessa mánaðar AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, líkti reynslu sinni er hún var að alast upp í Suðurríkjum Bandaríkjanna við reynslu bæði Palestínumanna og Ísraela á lokuðum fundi á ráðstefnunni í Annapolis fyrr í þessari viku. Sagði hún þetta auðvelda sér að skilja bæði aðstæður og afstöðu Ísraela og Palestínumanna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

„Ég veit hvernig er fyrir Palestínumenn að heyra að þeir geti ekki notað ákveðinn veg eða farið um ákveðinn vegatálma. Ég veit hvernig tilfinningin er þegar manni finnst maður beittur misrétti og vera algerlega valdalaus,” sagði hún samkvæm,t því sem fram kemur í bandaríska dagblaðinu Washington Post í dag. 

Rice sagði einnig frá því að skólasystir hennar hefði látið lífið í sprengjutilræði í kirkju í Birmingham í Alabama árið 1963. „Ég skil hvernig það er fyrir Ísraela að fara að sofa og vita ekki hvort þeir eigi eftir að slasast í sprengingu næsta dag, hvernig það er að vita af hryðjuverkamönnum í þínu eigin hverfi, á þínum eigin tilbeiðslustað,” sagði hún.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert