Bandaríkin hvetja til sátta

Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að íraskir leiðtogar verði að nýta það tækifæri sem sé til staðar vegna bætts öryggisástands í landinu og stuðla að sáttum.

John Negroponte hefur varað við því að aðhafist leiðtogarnir ekkert er hætt við því að mun verri átök muni brjótast út í Írak en þekkst hefur.

Hann lét ummælin falla í Bagdad þar sem hann lauk sex daga heimsókn sinni til Íraks.

Fyrr í dag sniðgengu þingmenn súnní-múslíma Íraksþing annan daginn í röð. Með þessu vilja þeir mótmæla því að leiðtogi þeirra, Adnan al-Dulaimi, hafi verið settur í stofufangelsi.

Dulaimi var í fyrstu haldið á heimili sínu í Bagdad en var síðar fluttur á hótel á græna svæðinu svokallaða í borginni, þar sem öryggisgæsla er mjög mikil.

Yfirvöld í Írak segja að ákveðið hafi verið að flytja Dulaimi svo tryggja megi öryggi hans betur.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert