Chavez vill aukin völd

Íbúar í Venesúela sjást hér ganga að kjörborðinu í Caracas …
Íbúar í Venesúela sjást hér ganga að kjörborðinu í Caracas í dag. AP

Íbúar í Venesúela ganga nú að kjör­borðinu í þjóðar­at­kvæðagreiðslu um hvort gera eigi breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá lands­ins líkt og for­seti lands­ins, Hugo Chavez, hef­ur lagt til. Hann vill að af­nema það hversu lengi hann geti gengt embætti for­seta og koma upp sósíal­ísku hag­kerfi.

Mik­il spenna rík­ir í land­inu og er bú­ist við tví­sýn­um kosn­ing­um. Af þess­um sök­um eru tald­ar vera aukn­ar lík­ur á því það muni slást í brýnu milli stuðnings­manna og and­stæðinga for­set­ans.

Chavez, sem er 53 ára gam­all fyrr­um fall­hlíf­a­hermaður, not­ar ol­íu­auð lands­ins til að hefja sókn gegn áhrif­um Banda­ríkj­anna í Rómönsku-Am­er­íku. Hann hef­ur varað við því að banda­ríska leyniþjón­ust­an CIA reyni að hafa áhrif á kosn­ing­arn­ar í land­inu og til­raun­um hans til að koma á um­bót­um í land­inu.

Hann hét því að Venesúela muni hætta að flytja olíu til Banda­ríkj­anna ef átök brjót­ast út í land­inu.

„Það verður ekki olía til fyr­ir neinn, og verðið á ol­íu­tunnu muni fara upp í 200 dali,“ sagði hann í gær.

Chavez sagði á sín­um síðasta kosn­inga­fundi á föstu­dag að: „Kjósi menn já, þá er það at­kvæði handa Chavez. Kjósi menn nei, er það at­kvæði handa Geor­ge W. Bush.“

Sam­kvæmt síðustu skoðana­könn­un­um er afar mjótt á mun­un­um. Chavez sæk­ir stuðning sinn til fá­tæk­ustu íbúa lands­ins, sem eru um 80% af 27 millj­ón­um íbú­um lands­ins.

Chavez vill að eng­in tak­mörk séu fyr­ir því hversu oft for­set­inn geti boðið sig fram. Þá vill hann að rík­is­stjórn­in fái völd til þess að þagga niður í fjöl­miðlum þegar neyðarástand rík­ir í land­inu og að eign­ar­svipt­ing verði heim­iluð.

Þá vill hann stytta vinnu­vik­una úr 40 stund­um í 36 stund­ir, efla dýr fé­lags­leg kerfi, efla læsi meðal íbúa lands­ins og bæta heilsu­gæslu meðal fá­tæk­ustu íbú­anna.

Chavez komst fyrst til valda árið 1999. Hann seg­ir að hann vilji vera við völd til árs­ins 2050 þegar hann verður orðinn níræður.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert