Fimm Egyptar létust og tveir slösuðust þegar eldur kviknaði í farþegaskipi í dag sem lá við akkeri við forn-egypsku rústirnar í Luxor, en þær eru við ána Níl. Flytja varð 43 franska ferðamenn á brott vegna eldsvoðans.
Eldurinn kviknaði í vélarherbergi skipsins M/S Aurora. Hann dreifðist hratt um það og olli miklum skemmdum.
Rannsókn er hafin á eldsupptökunum.
Farþegunum var komið fyrir í öðru skipi og héldu þeir ferð sinni áfram.
M/S Aurora er fimm stjörnu skemmtiferðaskip. Í því eru 42 svítur og er það eitt af mörgum skemmtiferðaskipum sem fara í vikulangar ferðir með ferðamenn upp og niður Níl.