Flokkur Pútíns fékk 62,8% atkvæða

Samkvæmt fyrstu tölum, sem birst hafa úr talningu atkvæða í þingkosningunum í Rússlandi í dag, fær Sameinað Rússland, flokkur Vladímírs Pútíns, forseta landsins, 62,8% atkvæða. Búið er að telja 12% atkvæða.

Samkvæmt tölunum, sem voru frá austasta hluta Rússlands, er útlit fyrir að fjórir flokkar fái yfir 7% atkvæða og komi því mönnum á þing. Kommúnistaflokkurinn var með 11,5% atkvæða, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, sem er flokkur öfgaþjóðernissinnans Vladimírs Zhírinovskís, fékk 10,6% og flokkurinn Réttlátt Rússland 7,1%. Allir þessir flokkar studdu stjórnvöld í Kreml á síðasta kjörtímabili.

Verði úrslitin á þessa leið þýða þau, að enginn af frjálslyndu stjórnarandstöðuflokkunum koma mönnum á þing. Samkvæmt fyrstu tölum var kjörsókn rúmlega  60%

Litið hefur verið á kosningarnar sem einskonar þjóðaratkvæðagreiðslu um Pútín. Forsetakosningar verða í mars á næsta ári og þá er Pútín ekki kjörgengur þar sem hann hefur setið í embættinu í tvö kjörtímabil. Hann hefur hins vegar sagt, að fengi Sameinað Rússland góðan stuðning muni það veita honum „siðferðislegan styrk" til að halda um einhverja stjórnartauma áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert