Karlmaður á áttræðisaldri hefur verið handtekinn á Ítalíu eftir að hann skaut konu sína til bana er hún lá á sjúkrahúsi.
Lögreglan í borginni Prato segir að maðurinn, sem er 77 ára, hafi skotið eiginkonu sína, sem er fimm árum eldri, þrisvar sinnum fyrir allra augum. Konan þjáðist af Alzheimer, að því er segir á fréttavef BBC.
Maðurinn sagði við lögregluna að hann hafi gert þetta þar sem hann gæti ekki lengur horft á eiginkonu sína þjást. Konan hafði verið greind með Alzheimer fyrir átta árum, en sjúkdómurinn veldur elliglöpum og dregur fólk loks til dauða.
Talið er að um 2-5% fólks á 65 ára og eldri og 20% þeirra sem eru eldri en 85 ára þjáist af sjúkdómnum.
Maðurinn gekk inn á sjúkrahúsdeildina þar sem eiginkona hans lá um kl. 17:30 í gær að því er fram kemur í ítalska dagblaðinu La Stampa. Hann tók fram skammbyssu og skaut hana tvisvar sinnum í höfuðið og einu sinni í bringuna.
Þegar hann hafði gert þetta lagði hann vopnið niður í einu horna herbergisins og beið eftir að lögreglan kæmi.