Bandaríkin fagna ósigri Chavez

Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela. Reuters

Bandaríkjastjórn hefur lýst því yfir að hún fagni kosningaósigri Hugo Chavez, forseta Venesúela. Gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu í gær um breytingar á stjórnarskrá landsins sem forsetinn vildi gera.

„Það lítur út fyrir að íbúarnir hafi tjáð sína skoðun [...] og ég tel að það sé jákvætt fyrir framtíð landsins og frelsið,“ sagði talskona Hvíta hússins.

Chavez, sem tapaði naumlega, segist ætla að reyna aftur að fá þjóðina til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingarnar, segir á vef BBC.

Meðal þeirra breytinga sem forsetinn vildi ná fram er að hann gæti gegnt embætti forseta til lífstíðar.

Sem fyrr segir var afar mjótt á mununum, en 51% landsmanna höfnuðu breytingunum á meðan 49% sögðu já.

Chavez viðurkenndi ósigur sigur, en það kom bæði stuðningsmönnum hans og andstæðingum á óvart. Chavez hvatti hinsvegar stuðningsmenn sína um að sýna stillingu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Chavez bíður lægri hlut í kosningum frá því hann komst til valda árið 1998. Að sögn fréttaskýranda BBC er litið á ósigurinn sem mikið áfall fyrir Chavez sem vill gera Venesúela að sósíalísku lýðveldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert