Bresk kennslukona sem var dæmd í fangelsi í Súdan fyrir að leyfa börnum sem hún kenndi að skíra bangsa Múhameð er á heimleið eftir að hún var náðuð í dag.
Gillian Gibbons var sleppt úr haldi eftir að hafa setið átta daga í gæsluvarðhaldi. Hún hafði verið dæmd í 15 daga fangelsi.
Gibbons flýgur nú til Bretlands með viðkomu í Dubai. Omar al-Bashir, forseti Súdans, náðaði hana eftir að hann átti fund með tveimur breskum þingmönnum, sem eru múslímar.
David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, segir að Gibbons sé í sjöunda himni yfir að hafa fengið frelsið sitt. Búist er við því að kennslukonan komi til Bretlands í fyrramálið.
Þá sagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, að hann væri hæstánægður með að Gibbons hafi verið sleppt.