Hugo Chavez, forseti Venesúela, viðurkenndi ósigur sinn í morgun, en tillögum Chavez um breytingar á stjórnarskrá landsins var hafnað naumlega í gær. Chavez hvatti landsmenn sína í sjónvarpi til að gera niðurstöðurnar ekki að deiluefni.
Tibisay Lucena, formaður kjörstjórnar landsins tilkynnti þessa niðurstöðu nú í morgun. Sagði hún að búið væri að telja 88% atkvæða en ljóst væri að þetta yrði niðurstaðan.
„Þetta var hnífjafnt," sagði Chavez eftir að úrslitin voru tilkynnt og bætti við að hann myndi virða niðurstöðuna. Þetta er í fyrsta skipti í 9 ár, sem andstæðingar forsetans vinna kosningar í landinu.
Chavez vildi gera umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá landsins þar sem honum hefði meðal annars verið gert mögulegt að bjóða sig fram til forseta í þriðja sinn árið 2012. Þá hefðu breytingarnar gefið forseta landsins aukin völd yfir seðlabanka landsins, gert honum auðvelt að lýsa yfir neyðarlögum.
Hugmyndirnar voru hluti af ,,sósíalistabyltingu Chavez. Stjórnarandstæðingar sögðu, að yrðu stjórnarskrárbreytingarnar samþykktar væru Venesúelabúar í raun að kjósa yfir sig einræði. Stuðningsmenn Chavez sögðust hins vegar treysta því, að forsetinn myndi nota aukin völd sín til að dreifa olíuauði landsins með réttlátari hætti og auka völd grasrótarinnar.