„Ben-Gurion hafði rétt fyrir sér," sagði Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, á sérstökum hátíðarfundi á þingi Ísraels í Jerúsalem í dag þar sem þess var minnst að 60 ár eru liðin frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að skipta landinu milli gyðinga og Araba.
Olmert sagði, að David Ben-Gurion, sem var fyrsti forsætisráðherra Ísraels, hefði haft rétt fyrir sér þegar hann ákvað að fallast á áætlun Sameinuðu þjóðanna. Olmert sagði, að nú væri ekki síður mikilvægt að skipta landinu upp í ríki gyðinga og Araba. „Það er engin önnur leið," sagði hann.
Í þingsalnum sátu m.a. ættingjar sendiherra, sem greiddu atkvæði með með áætlun SÞ á allsherjarþinginu 29. nóvember 1947.
Olmert sagði, að Ísrael ætti skilið viðurkenningu umheimsins fyrir að fallast á skiptinguna. Arabaríki hafnaði henni hins vegar og eftir að Ísrael lýsti yfir sjálfstæði hálfu ári síðar brutust út hernaðarátök milli Ísraelsmanna og Araba.
Benjamin Netanyahu, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Ísrael, sagði í þingræðu að Palestínumenn vildu tvö ríki fyrir eina þjóð: Palestínuríki og Ísraelsríki sem Palestínumenn vilji setjast að í samkvæmt „réttinum til að snúa aftur."
Olmert sagði Ísrael myndi taka þátt í að endurhæfa palestínska flóttamenn þótt hafnað yrði kröfu þeirra um að fá að setjast að í Ísrael. „Við gerum það af fúsum og frjálsum vilja, ekki vegna sektarkenndar heldur af mannúðarástæðum og við viljum vera góðir nágrannar. Það er loforð og skuldbinding," sagði hann.