Tveggja vikna árleg ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál hófst á eynni Bali í Indónesíu í dag. Á ráðstefnunni verður m.a. rætt hvort þörf sé á því að setja bindandi markmið og hvernig best sé að koma fátækum þjóðum til aðstoðar.
Þetta er í fyrsta sinn sem hin árlega ráðstefna er haldin frá því að ráðgjafanefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út það mat sitt að ekki væri lengur vafi á því að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru þegar orðnar að staðreynd.
Eitt helsta viðfangsefni ráðstefnunnar er að reyna að komast að samkomulagi um hvað taka skuli við þegar Kyoto-sáttmálinn rennur út árið 2012.
Bandaríkjamenn eru andvígir því að setja bindandi markmið líkt og í Kyoto-sáttmálanum. Þá eru ýmsir á því að slík markmið geri lítið gagn og að heldur beri að leggja áherslu á að leysa vandann með tækniframförum.
Losun gróðurhúsalofttegunda meðal 40 ríkustu landa heims hafði aldrei verið meiri en árið 2005 þegar Kyoto-sáttmálinn tók gildi. Bandaríkjamenn tilkynntu þó fyrir skömmu að losun slíkra lofttegunda þar í landi hefði minnkað árið 2006 um 1,5%.