Rússnesk stjórnvöld vísa öllum ásökunum á bug um að kosningar í Rússlandi hafi hvorki verið frjálsar né hlutlausar. Þau segja að lýðræðið sé í hávegum haft í Rússlandi líkt og á Vesturlöndum. Flokkur Valdimírs Pútíns vann stórsigur í kosningunum.
„Við erum að sjálfsögðu ósammála því að ekki ríki lýðræði í Rússlandi og að kosningin hafi verið ólýðræðisleg,“ sagði talsmaður rússneskra stjórnvalda, Dimitry Peskov, í samtali við erlenda blaðamenn í dag.
„En hugmyndafræðilegur munur getur aðeins orðið á milli tveggja ólíkra kerfa. Við erum ekki með ólík kerfi, við deilum sömu grundvallargildum,“ bætti hann við. „Ég tel að það sé enginn möguleiki á því að þetta muni breikka bilið á milli okkar.“
Pútín, sem gagnrýndi Vesturlönd á meðan kosningabarátta hans stóð yfir, var efsti maður á lista Sameinaðs Rússlands. Hann átti stóran þátt í því að flokkurinn fékk meirihluta þingsæta í neðri deild þingsins, Dúmunni.
Hann varaði við því á meðan kosningabaráttunni stóð að hann muni ekki leyfa Vesturveldunum að skipta sér af rússneskum innanríkismálum. Þá sagði hann að Bandaríkin hafi hvatt Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) til að senda ekki eftirlitsmenn til að fylgjast með kosningunum.
Pútín grunar að Vesturveldin reyni að grafa undan Rússlandi með því að styðja uppreisnir líkt og þær sem hafa orðið fyrrum Sovétlýðveldunum Úkraínu og Georgíu. Hann segir að Rússland myndi aldrei gera slíkt.
Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.