Bush: Enn stafar ógn af Íran

Enn stafar ógn af Íran, sagði George W. Bush, Bandaríkjaforseti, í dag, og neitaði að útiloka skilyrðislaust að hervaldi yrði beitt gegn Írönum, þrátt fyrir að bandaríska leyniþjónustan hafi greint frá því að Íranir hafi hætt við þróun kjarnorkuvopna fyrir fjórum árum.

„Besta samningatæknin, samningatækni sem ber árangur, er að hafa alla möguleika uppi á borðum,“ sagði Bush á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.

„Íran var hættulegt, Íran er hættulegt og Íran mun halda áfram að verða hættulegt ef þeir ráða yfir þeirri þekkingu sem til þarf svo smíða megi kjarnorkuvopn.“

Þar hvatti forsetinn bandalagsríki Bandaríkjanna að auka þrýsting á Írana vegna kjarnorkumálsins. Ítrekaði forsetinn að Íranar væru enn að reyna að komast yfir þekkingu á því hvernig úran sé auðgað, sem væri mikilvægt skref við þróun kjarnavopna.

Bush ræddi við Pútín 

Þá sagði Bush í ræðu sinni í Hvíta húsinu í dag, að hann hafi rætt við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag og m.a. lýst yfir áhyggjum af stöðu lýðræðisins í Rússlandi í ljósi þingkosninga, sem þar fóru fram á sunnudag.

„Ég sagði við hann það væri einlæg skoðun okkar við hefðum áhyggjur af kosningunum,“ sagði Bush stuttu eftir að hafa rætt við Pútín í síma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert