Yfirvöld í Sómalíu hafa komið í veg fyrir að hægt verði að dreifa matvælum í héraðinu Neðra Shabelle þar sem neyðarástand ríkir. Þetta segja embættismenn á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Ekki er hægt að afferma tvö skip sem eru full af hjálpargögnum. Franski sjóherinn fylgdi þeim til Sómalíu til að koma í veg fyrir að árásir sjóræningja.
Embættismennirnir hafa miklar áhyggjur af því að ekki verði leyft að koma matvælunum á réttan stað. Búið er að loka höfnum og flugvöllum og þá er búið að banna alla landflutninga með vörur. Þetta kemur fram áfréttavef BBC.
Um milljón Sómalar eru nú heimilislausir vegna átakanna í landinu að sögn SÞ.
Yfirmaður þjóðaröryggisstofnunar landsins segir að Abdullahi Yusuf, forseti Sómalíu, hafi fyrirskipað að takmarkanir yrðu lagðar á á svæðinu þegar í stað.
Þá hefur Yusuf verið fluttur á sjúkrahús í Nairobi. Að sögn embættismanna líður forsetanum vel. Aðrir halda því fram að ástand forsetans sé alvarlegt.
Búist er við því að hann missi af mikilvægum fundi sem fram fer í Eþíópíu á miðvikudag, en þar munu leiðtogar nærliggjandi ríkja koma saman ásamt Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.