127 blaðamenn sitja í fangelsi

Bilal Hussein er einn af þeim 127 blaðamönnum sem sitja …
Bilal Hussein er einn af þeim 127 blaðamönnum sem sitja á bak við lás og slá án ákæru. Reuters

Að minnsta kosti 127 blaðamenn og fréttaljósmyndarar vítt og breitt um heiminn sitja nú í fangelsi. Einn af hverjum sex hefur aldrei verið formlega ákærður fyrir glæp. Þetta kemur fram í árlegri könnun samtaka sem stuðla að frelsi fjölmiðla.

Alþjóðleg samtök til verndar blaðamönnum (CPJ) segja að þeim blaðamönnum sem sitja á bak við lás og slá hafi aðeins fækkað sem nemur sjö manns miðað við síðasta ár. Samtökin segja hinsvegar að þeim tilfellum hafi fjölgað þar sem blaðamenn séu í haldi án ákæru.

„Það að fangelsa blaðamenn á grundvelli fullyrðinga má ekki rugla saman við hið lagalega ferli. Þetta er ekkert annað en mannrán sem ríkið styður,“ sagði framkvæmdastjóri samtakanna, Joel Simon. „Þó að við séu á þeirri skoðun að sleppa eigi öllum 127 blaðamönnunum þá höfum við sérstakar áhyggjur af þeim sem hafa verið fangelsaðir án ákæru, því þeim er oft haldið við hræðilegar aðstæður, og eru í engu sambandi við lögmenn eða ættingja sína.“

Flestir blaðamenn hafa verið settir á bak við lás og slá í löndum sem eru alræmd fyrir að sýna fjölmiðlum lítið sem ekkert umburðarlyndi.

Tuttugu og níu blaðamenn eru í haldi í Kína. Margir þeirra eru sakaðir um að gefa út bæklinga þar sem stjórnvöld eru gagnrýnd.

Þá eru yfirvöld á Kúbu, Íran, Erítreu og Azerbadjan dugleg að fangelsa blaðamenn að því er samtökin segja.

Blaðamönnum haldið í bandarískum fangelsum án ákæru

CPJ vísuðu jafnframt til tveggja blaðamanna sem hafa verið í haldi án ákæru í Bandaríkjunum. Það eru Sami al-Haj, sem er kvikmyndatökumaður hjá Al-Jazeera fréttastöðinni, og Bilal Hussein, sem er ljósmyndari fyrir AP-fréttastofuna. Al-Haj hefur verið í haldi í Guantanamó-fangelsinu á Kúbu sl. fimm ár og Hussein hefur verið í haldi Bandaríkjahers í Írak í tæp tvö ár.

Al-Haj, sem er frá Súdan, var handtekinn af hersveitum í Pakistan árið 2002 þegar hann reyndi að komast til Afganistan til þess að fjalla um stríðsátökin þar. Pakistönsk yfirvöld afhentu Bandaríkjaher al-Haj sem segir að blaðamaðurinn sé stríðsmaður óvinahersins. Þá er hann jafnframt sakaður um að hafa flutt fé á tíunda áratugnumtil góðgerðasamtaka sem útveguðu uppreisnarmönnum í Tsjétsníu fé.

Talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins hafa sagt í nýlegum viðtölum að það hafi ekkert með fangelsun hans að gera að hann starfi sem blaðamaður.

Hussein var hluti af fréttaljósmyndateymi frá AP-fréttastofunni sem deildu með sér Pulitzer-verðlaunum árið 2005. Bandarískar hersveitir handtóku hann í Írak árið 2006.

Hingað til hefur herinn neitað að tjá sig um ákæruatriðin á hendur honum annað en það að Hussein hafi tengsl við uppreisnarhópa í Írak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert