Þýska lögreglan hefur handtekið 28 ára gamla móður eftir að þrjú barnslík fundust á heimili hennar og á heimili ættingja konunnar. Konan hefur verið ákærð fyrir manndráp.
Lögreglan segir að fyrsta líkið hafi fundist 27. nóvember sl. eftir að yfirvöld höfðu spurt konuna hvers vegna ekki væri búið að fara með barnið í skoðun áður en það hæfi skólagöngu. Lík barnsins, sem var fimm ára, fannst vafið í plast og falið í skjalatösku í geymslu heima hjá ættingja konunnar.
Hin líkin fundust í gær á heimili konunnar í borginni Plauen, sem er skammt frá landamærum Tékklands.
Lögreglan segir að börnin tvö hafi fæðst á heimili konunnar. Hún segir hinsvegar ekki hvenær börnin komu í heiminn. Líkin höfðu verið vafin í plast. Öðru þeirra hafði verið komið fyrir í frysti en hitt var geymt úti á svölum.
Konan hefur verið handtekin en hún neitar að hafa orðið börnum sínum að bana. Hún á tvö önnur börn á lífi. Þau eru nú í umsjá félagsmálayfirvalda.