Ísraelski herinn hefur lokið öllum undirbúningi fyrir umfangsmikla árás á Gazasvæðið og bíður einungis eftir skipun stjórnvalda um innrás. Þar til skipunin berst heldur herinn áfram þeirri stefnu að gera loftárásir og skyndiáhlaup til að koma í veg fyrir eldflaugaárásir Palestínumanna.
Þetta sagði Gabi Ashkenazi hershöfðingi í dag. Varnarmálaráðherra Ísraels, Ehud Barak, hefur ítrekað sagt að tími sé kominn til að gera umfangsmikla innrás á landi á Gazasvæðið. En síðast í gær sagði hann að ekki væri enn nauðsynlegt að hefja slíka innrás, sem að öllum líkindum myndi kosta mikið mannfall í ísraelska hernum og meðal óbreyttra, palestínskra borgara á Gaza, þar sem þéttbýli er mikið.