Íranski forsetinn Mahmoud Ahmadinejad sagði í ræðu sem sjónvarpað var í Íran í dag að bandarísk skýrsla um kjarnorkumál Írana væri „mikill sigur" fyrir Írana.
Í ræðu sinni ítrekaði Ahmadinejad að Íranar hyggðust ekki láta af friðsamlegri kjarnorkuáætlun sinni. Þá kallaði hann skýrsluna „síðasta höggið" og að hún sýndi greinilega að Íranar væru á réttri leið. Fréttavefur BBC segir frá þessu.
Ahmadinejad varaði hins vegar við því að ef til stæði að hefja herferð gegn Írönum að nýju myndi „þjóðin spyrna við fótum og ekki gefa þumlung eftir".
„Ef þið viljið eiga við okkur sem óvin, þá mun íranska þjóðin veita mótspyrnu og sigra ykkur. Ef samskiptin eru á grundvelli vinskapar og samvinnu, þá verður íranska þjóðin mikill vinur."
Í skýrslu sem bandarísk stjórnvöld leyniþjónustu sína gera segir að Íranar hafi hætt þróun kjarnavopna árið 2003. George Bush, Bandaríkjaforseti, sagði hins vegar í gær að ógn stafaði enn af Íran og að sú skoðun hans að kjarnorkuvætt Íran skapaði hættu hefði ekki breyst.
Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðir hafa þrýst á að Sameinuðu þjóðirnar beiti frekari þvingunaraðgerðum til að fá Írana til að láta af áætluninni. Kínverjar hins vegar hafa sagt að skýrslan veki upp spurningar um það hvort ekki þurfi að beita nýjum aðferðum í samskiptum við Írana.