19 ára byssumaður vildi öðlast frægð

Maðurinn sem skaut átta manns til bana í verslunarmiðstöð í Omaha í Bandaríkjunum áður en hann framdi sjálfsvíg var 19 ára gamall. Mikil skelfing greip um sig í verslunarmiðstöðinni þegar árásarmaðurinn hóf skothríð.

„Nú verð ég frægur,“ skrifaði Robert Hawkins í sjálfvígsbréfi að því er leigusali hans sagði í samtali við CNN fréttastöðina. Leigusalinn segist hafa einni fundið erfðaskrá Hawkins .

Lögreglan hefur neitað að tjá sig nokkuð um efni bréfsins.

Fimm særðust í árásinni, þar af tveir lífshættulega. Hún átti sér stað fyrri part dags í Omaha í Nebraska. Flest fórnarlambanna í Westroads verslunarmiðstöðinni voru skotnir í Von Maur stórversluninni skammt frá barnadeildinni.

„Þetta var hræðilegt, gjörsamlega hræðilegt,“ sagði ein kona í samtali við KETV sjónvarpstöðina. Hún segist hafa falið sig undir fatahrúgu um leið og skotin riðu af.

Árásin bætist í hóp fjölda annarra svipaðra árása sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum að undanförnu.

Hvíta húsið sendi frá sér yfirlýsingu vegna árásarinnar þar sem fram kemur að atburðurinn sé harmaður.

Fréttavefur Reuters greindi frá. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert