Svíar myndu bregðast við árás á Ísland

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Reuters

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir við norska blaðið Aftenposten í dag, að fyrir hafi legið að Svíar muni ekki sitja aðgerðalausir ef ráðist verði á önnur aðildarríki Evrópusambandsins. Nú hafi sænsk stjórnvöld ákveðið að þessi stefna muni einnig ná til Íslands og Noregs.

Sænsk  þverpólitísk nefnd um utanríkismál skilaði skýrslu á þriðjudag og þar segir meðal annars að Svíar muni ekki halda sig til hlés ef önnur aðildarríki ESB eða önnur Norðurlönd verða fyrir hörmungum eða árásum. Svíar vænti þess, að þessi lönd muni bregðast við með sama hætt ef ráðist er á Svía.

Blaðið segir að bæði Bildt og Urban Ahlin, talsmaður sænska Jafnaðarmannaflokksins í utanríkismálum, hafi lagt á það áherslu á fundi í Uppsölum í gær, að Svíar muni þó ákveða sjálfir til hvaða aðgerða þeir grípi ef aðstæður sem þessar koma upp.

Haft er eftir Ahlin að Svíar axli ekki ábyrgð á öryggismálum á norðurslóðum. Þeir standi utan hernaðarbandalaga en eigi samvinnu við önnur ríki um öryggismál.

Bildt sagði, að hann vildi hvetja til aukinnar umræðu um öryggismál í Svíþjóð.  Hann viðurkennir, að í því felist þversögn, að sænskir hermenn taki þátt í verkefnum víða um heim undir stjórn NATO þótt Svíar séu ekki aðilar að bandalaginu.

Frétt Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert