Skipið Steve Irwin sem er í eigu náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd fór úr höfn frá Melbourne í Ástralíu í gær í nýrri herferð gegn hvalveiðum Japana. Að sögn ástralska fréttavefjarins Sun Herald mun skipinu verða siglt um suðurhöf með því markmiði að stöðva og mótmæla hvalveiðum Japana.
Samtökin hafa sætt mikilli gagnrýni vegna aðgerða sem þeir beittu gegn japanska hvalveiðiflotanum fyrr á árinu. Þá sigldu þeir í veg fyrir skip Japana og reyndu að hindra að Japanir kæmust á hrefnumiðin.
Skipið hét áður Robert Hunter en fékk nýja nafnið Steve Irwin, og var nefnt svo til minningar um krókódílaveiðarann svokallaða sem var mikill dýraverndunarsinni en lést í fyrra af völdum stungusárs gaddaskötu.
Ekkja Steve, Kerri Irwin, vígði nýja nafnið, og skoraði á Japani að láta af hvalveiðum. Hún sagði Steve hafa lengi verið stuðningsmann Sea Shepherd og að hann hafi litið á skipstjórann Paul Watson sem hetju.