Í kvenmannsföt til að skilja þarfir kvenna

Þegar talað er um bíla fyrir konur hugsa fæstir um stóra ameríska jeppa. Sannleikurinn er samt sá að í þeim enda framleiðslulínu GM hefur verið lögð sérstök áhersla á að gera bílana aðgengilega fyrir konur. Ef þér finnst það hljóma undarlega, bíddu þangað til þú lest hvernig að því var staðið.

Fyrir nokkrum árum datt Mary Stripe, einni úr fámennum hópi kvenna sem höfðu unnið sig upp innan GM, í hug að stærstu bílarnir væru of karllægir og því fráhrindandi fyrir konur. Hún bauð því karlkyns hönnuðum og verkfræðingum í bíltúr sem tók aðra stefnu en þeir áttu von á.

Fyrsta stopp var skóbúð þar sem keypt voru nokkur pör af háhæluðum skóm númer 47. Því næst voru mennirnir klæddir í ruslapoka til að líkja eftir pilsum og fengu gúmmíhanska með álímdum gervinöglum. Dagurinn gekk svo út á að fara í gegnum venjulegan dag húsmóður og nota bíla fyrirtækisins án þess að brjóta nögl, rífa pils og þar fram eftir götunum. Þetta mun hafa opnað augu karlanna fyrir því hvað bílarnir tóku lítið tillit til kvenna. Til dæmis fundu þeir hvergi stað til að leggja veskið frá sér. Þeir hönnuðu því stærri miðjuhólf. Þeim fannst erfitt að stíga upp í bílinn í pilsi og settu því stigbretti á bílana.

Neglurnar urðu svo kveikjan að stærri hnöppum á útvörpum, léttari afturhlerum og fleiri smáatriðum. Í það heila var dagurinn mjög árangursríkur og eftir klæðskiptin er tekið meira tillit til kvenna við hönnun stórra bíla innan GM. Þótt hugmyndin sé góð, og ekki síður fyndin, vaknar sú spurning hvort ekki hefði bara verið einfaldara að spyrja nokkrar konur? Nú eða jafnvel ráða konur í hönnunar- og verkfræðistörf hjá fyrirtækinu?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka