Bjó í fylgsni á heimilinu

John Darwin gaf sig óvænt fram við lögreglu
John Darwin gaf sig óvænt fram við lögreglu Reuters

Anne Darwin, eiginkona manns sem talinn var hafa látist fyrir fimm árum , hefur greint frá því að hann hafi búið á heimili þeirra í nærri þrjú ár frá því hann var úrskurðaður látinn í kjölfar smábátaslyss. Darwin segir eiginmanninn John hafa dvalið í fylgsni á bak við fataskáp í svefnherbergi þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef Sky

„Í þrjú ár þegar allir sem stóðu okkur næst héldu að John væri horfinn og talinn af, var hann í raun heima hjá mér," er haft eftir konunni en  hjónin áttu tvö samliggjandi hús og munu hafa útbúið fylgsnið í því húsinu sem ekki var búið í. 

Anne hefur greint fréttamönnum frá því að eiginmaður hennar hafi lengi talað um að sviðsetja dauða sinn áður en hann lét verða af því. Þá segist hún ekki hafa vitað að um sviðsetningu væri að ræða fyrr en hann birtist á heimili þeirra ellefu mánuðum eftir að hann hvarf. Segir hún hann hafa hótað að segja hana meðseka léti hún yfirvöld vita að hann væri á lífi. 

Gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur Anne en eiginmaður hennar John birtist óvænt á lögreglustöð eftir að hafa verið talinn látinn í fimm ár. Anne er sögð vera á leið til Bretlands og verður hún handtekin jafnskjótt og hún stígur fæti á breska grundu.

John Darwin var talinn hafa látist í kanó-slysi árið 2002, en nú þykir víst að hann hafi ásamt konu sinni sviðsett dauðdaga sinn og innheimt tryggingaféð.
Synir hjónanna segjast ekki hafa vitað að faðir þeirra var á lífi og vilja sem minnst vita af foreldrum sínum. Þeir segjast æfareiðir yfir því að hafa verið gerðir að fórnarlömbum í tryggingasvikamáli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert