Ze'ev Boim, húsnæðismálaráðherra Ísraels, lýsti því yfir í dag að engin ástæða væri til þess að Ísraelar hættu við áform sín um byggingu 300 íbúða í Har Homa hverfinu í Austur-Jerúsalem en Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur varað við því að áformin geti stofnað endurnýjum friðarferlis Ísraela og Palestínumanna í hættu. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
„Blessuð sé Rice utanríkisráðherra fyrir viðleitni hennar til að endurvekja friðarferlið,” sagði Boim. „Það gengur hins vegar ekki að hvert einasta skref til uppbygging í Jerúsalem verði tengt því. Har Homa hverfið er innan borgarmarka Jerúsalem samkvæmt ísraelskum lögum og því ekkert í vegi fyrir uppbyggingu þar. Fremur en á nokkrum öðrum stað í Ísrael.
Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna, hefur farið fram á það við Bandaríkjastjórn að hún beiti sér fyrir því að dregið verði úr uppbyggingu Ísraela á þeim svæðum sem Palestínumenn gera tilkall til. Í friðarvegvísinum svokallaða er kveðið á um að Ísraelar hætti uppbyggingu svokallaðra landnemabyggða á fyrsta stigi nýs friðarferlis.
Byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum Ísraela í Har Homa var samþykkt af ísraelskum yfirvöldum viku eftir að ráðstefna um deilur Ísraela og Palestínumanna fór fram í Annapolis í Bandaríkjunum