Kanadískur svínabóndi var í dag dæmdur fyrir morð af annarri gráðu en hann er ákærður fyrir morð á 26 konum. Var hann í dag dæmdur fyrir morð á sex þeirra en enn á eftir að kveða upp dóm í máli hinna kvennanna. Þýðir dómurinn lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrr en eftir tíu ár.
Réttarhöldin í málinu hafa staðið yfir í tæpt ár í Vancouver í Kanada en Robert Pickton hefur neitað því að hafa myrt konurnar, sem flestar voru vændiskonur og fíklar, sem hurfu sporlaust á tveimur áratugum.
Í kjölfarið munu svo fara fram önnur réttarhöld þar sem hann verður ákærður fyrir morð á 20 konum til viðbótar, sem taldar eru hafa horfið sporlaust frá rauða hverfinu i í Vancouver. Lögregla hefur tilkynnt um 65 konur sem er saknað á svæðinu og er óttast að Pickton hafi jafnvel myrt mun fleiri en þessar 26.
Hann er sagður hafa boðið vændiskonunum heim til 17 ekru svínabús fjölskyldu sinnar, „Piggy Palace", þar sem hann hafi verið frægur fyrir að efna til „villtra" samkvæma.