Danskir sérfræðingar hafa gagnrýnt þá nýjung hjálparstofnana að gefa fólki kost á að fjármagna kaup á vatnspumpum, ösnum og geitum í Afríku í nafni vina sinna og ættingja en síðasta árið hafa vinsældir slíkra gjafa aukist mjög. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Ætli menn að aðstoða fólk við að komast út úr fátækt er ekki nóg að gera eitthvað eitt, heldur þarf að gera fleiri hluti á sama tíma þar sem margir samverkandi þættir hafa áhrif á líf fólks,”segir Lars Engberg-Pedersen, verkefnastjóri hjá samtökunum Dansk Institut for Internationale Studier.
„Hjálparsamtök staðhæfa að asni eða vatnspumpa geti átt þátt í því að koma breytingum af stað en ég hef ekki trú á því nema fleiri þættir komi til. Slíkar gjafir skapa því ranghugmyndir hjá Dönum um það hversu miklum breytingum þeir séu að stuðla að.”Fjöldi hjálparstofnana býður Vesturlandabúum nú upp á að styrkja fjölskyldur í Afríku með slíkum hætti í stað þess að gefa vinum og ættingjum heima fyrir tækifærisgjafir.Um síðustu jól safnaði hjálparstofnun dönsku þjóðkirkjunnar tíu milljónum danskra króna með þessum hætti og í ár bjóða stofnanir á borð við Care, UNICEF, Rauði krossinn og Ibis einnig upp á slíkt þar í landi.