Ákvörðun dómara í Ástralíu um að fangelsa ekki níu menn sem sakaðir eru um að hafa nauðgað tíu ára frumbyggjastúlku, hefur vakið mikla reiði þar í landi. Í úrskurði dómarans segir að miklar líkur séu á að stúlkan hafi sjálfviljug haft samræði við mennina. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Atvikið átti sér stað í Aurukun-frumbyggjasamfélaginu í norðurhluta Queensland árið 2005 og í kjölfar dómsins hafa yfirvöld í ríkinu ákveðið að láta fara yfir meðferð kynferðisbrotamála í samfélögum frumbyggja í ríkinu.
Í úrskurðinum segir dómarinn Sarah Bradley að stúlkunni hafi ekki verið þröngvað til kynferðislegra athafna. Hún hefur síðan varið úrskurðinn og sagt að ákæruvaldið hafi ekki farið fram á harðari dóma í málinu.
Sex af hinum ákærðu, sem allir voru undir lögaldri er atvikið átti sér stað, voru dæmdir til tólf ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar en hinir þrír voru dæmdir til sex mánaða fangelsisvistar sem þó kemur ekki til afplánunar gerist þeir ekki brotlegir að nýju.