Boris Tadic, forseti Serbíu, segir að serbnesk stjórnvöld ætli að biðja Alþjóðadómstólinn í Haag álits á áformum Vesturlanda að viðurkenna sjálfstætt ríki Kosovo-Albana. Segist Tadic þegar hafa hafið undirbúning þessa.
Danskir fjölmiðlar segja að Tadic hafi lýst þessu yfir í viðtali við RTS, opinbera sjónvarpsstöð Serbíu. Sagði hann að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verði beðið um hafi forgöngu að því að leita álits Alþjóðadómstólsins á því, hvort sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo væri í samræmi við alþjóðalög.
Flestöll ríki Evrópusambandsins hafa lýst því yfir, að þau séu tilbúin að viðurkenna Kosovo ef Kosovo-Albanar lýsa yfir sjálfstæði. Kosovo er nú hérað í Serbíu undir stjórn Sameinuðu þjóðanna.
Tadic sagðist vona, að öryggisráð SÞ muni halda fund um málið 19. desember. Rússar styðja Serbíu í deilunni og þeir hafa neitunarvald í öryggisráðinu.