Hollenskur ríkiserindreki og eiginkona hans sem búa í Hong Kong hafa skilað aftur sjö ára gamalli stúlku frá Suður-Kóreu sem þau ættleiddu er hún var smábarn. Gefa þau þá skýringu að hún hafi ekki samlagast fjölskyldu þeirra, samkvæmt upplýsingum frá ræðismannsskrifstofu Suður-Kóreu í Hong Kong.
Hjónin skiluðu stúlkunni nýverið en þau ættleiddu hana fyrir sjö árum, að sögn talsmanns ræðismannsskrifstofunnar. „Þau eiga nú sín eigin börn. Þau ákváðu að það væri erfitt að ala hana upp vegna þess hve ólíkir menningarheimar þeirra og hennar eru. Þau sögðu að hún hafi ekki viljað borða matinn þeirra. Það var ein af ástæðunum sem þau gáfu. Það er einkennileg ástæða," sagði talsmaðurinn í samtali við AFP fréttastofuna.
Segir hann að þau hafi alið stúlkuna upp frá því hún var smábarn og mjög sjaldgæft sé að börnum sé skilað með þessum hætti. Að hans sögn ættleiddu hjónin stúlkuna er maðurinn starfaði á vegum utanríkisþjónustu Hollands í S-Kóreu.
Í dag greindi dagblaðið JoongAng í S-Kóreu frá því að eiginkona ríkiserindrekans hafi talið að hún gæti ekki eignast börn þegar þau ættleiddu stúlkuna árið 2000 en hún hafi orðið ófrísk eftir að þau fluttu til Hong Kong. Stúlkan er með vegabréf frá Kóreu en ekki Hollandi. Hún talar ensku og kantonsku en ekki kóreönsku. Stjórnvöld í Hong Kong hafa fundið skóla fyrir stúlkuna og leitar nú að nýju heimili fyrir hana.