Misjafnt er hvort fólk álítur frelsi fjölmiðla mikilvægt eftir því hvar fólk býr í heiminum, samkvæmt nýrri könnun BBC. Alls telja 56% aðspurðra að frelsi fjölmiðla sé mjög mikilvægt til þess að tryggja frelsi í þjóðfélögum en um 40% telja mikilvægara að þar ríki félagslegt samræmi og friður. Skiptir þar engu þó að það þýði minni möguleika fjölmiðla á því að greina rétt og satt frá. Alls tóku 11.344 þátt í könnuninni í 14 löndum.
Í flestum landanna álitu þó viðmælendur að frelsi fjölmiðla skipti meira máli heldur en stöðugleiki í þjóðfélögum. Helst voru það íbúar ríkja Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu sem töldu frelsi fjölmiðla mikilvægast. Svipað var uppi á teningnum hjá íbúum Venesúela, Kenýa og Suður-Afríku.
Íbúar Indlands, Singapúr og Rússlands voru hins vegar á því að stöðugleiki skipti meira máli heldur en frelsi fjölmiðla.
Samkvæmt skoðanakönnuninni töldu ýmsir það af hinu slæma ef einkafyrirtæki réðu yfir stórum hluta fjölmiðla. Í Brasilíu, Mexíkó, Bandaríkjunum og Bretlandi töldu yfir 70% þátttakenda að það skipti miklu máli hvernig eignarhaldi fjölmiðla var háttað, þar sem stjórnmálaskoðanir eigenda endurspeglist í því hvernig fréttir viðkomandi fjölmiðla birtast almenningi. Í Þýskalandi töldu einungis 18% aðspurðra að treysta mætti fréttum fjölmiðla í einkaeigu fullkomlega.