Tvær skotárásir, sem gerðar voru í Colorado í Bandaríkjunum í gær, kunna að tengjast að sögn þarlendrar lögreglu en ekki hefur verið upplýst með hvaða hætti. Árásarmaðurinn í síðari árásinni var skotinn til bana. Alls létu 4 lífið og sex særðust í árásunum. AFP fréttastofan sagði í gærkvöldi að sjö hefðu látið lífið en það reyndist ekki rétt.
Fyrri árásin var gerð í gærmorgun á trúboðsskóla í Arvada, úthverfi Denver. Þar hóf ungur maður skothríð með skammbyssu eftir að honum hafði verið neitað um húsaskjól. Tveir starfsmenn skólans létu lífið og tveir særðust. Árásarmaðurinn flúði af staðnum.
Um 12 stundum síðar var síðari árásin gerð á New Life kirkjuna í Colorado Springs. Árásarmaðurinn hóf að skjóta á kirkjugesti en öryggisvörður í kirkjunni skaut manninn. Einn kirkjugestur lést og fjórir særðust.